04.12.2024 | News
Kælitækni íslenska fyrirtækisins Thor Ice dregur úr orku- og vatnsnotkun samhliða því að auka geymsluþol matvæla og draga úr matarsóun. Fjármögnun frá Nefco mun styðja við áframhaldandi alþjóðlegan vöxt fyrirtækisins.
Íslenska nýsköpunar- og hátæknifyrirtækið Thor Ice Chilling Solutions ehf. og norræna fjármálastofnunin Nefco – the Nordic Green Bank, hafa undirritað lánasamning. Fjármögnunin, sem nemur tveimur milljónum evra, mun styðja við áframhaldandi útrás félagsins og alþjóðlegan vöxt þess.
Með nýrri lausn Thor Ice Chilling Solutions, má draga úr orkunotkun við kælingu fisks, fuglakjöts og annarra matvæla, samhliða því að hraða kælingu matvæla og auka geymsluþol sem þannig dregur einnig úr matarsóun. Kælitækni Thor Ice gerir fyrirtækjum kleift að framleiða ískrapa á hagkvæmari hátt, en notkun ískrapa hraðar kælingu matvæla samanborið við hefðbundnar kæliaðferðir með vatni eða ís, sem dregur úr notkun vatns og orku.
Thor Ice Chilling Solutions hlaut fyrst fjármögnun frá Nefco árið 2020 en þessi seinni lánasamningur mun bætast við fyrri fjármögnun félagsins og styðja áframhaldandi vöxt þess. Áður hafði Thor Ice einnig hlotið fjárstuðning frá Nopef, norrænum verkefnasjóði sem Nefco stýrir, til að kanna fýsileika vaxtar fyrirtækisins á erlendum mörkuðum.
Nánar er fjallað um lánasamning Thor Ice og Nefco í fréttatilkynningu (á ensku). Þar má einnig finna beinar tilvitnanir frá Vivi Avikainen, fjárfestingarstjóra hjá Nefco, og Þorsteini Inga Víglundssyni, forstjóra Thor Ice Chilling Solutions ehf. Fréttatilkynninguna má finna hér.
Thor Ice Chilling Solutions, var stofnað árið 2002, hefur kynnt byltingarkennda tækni, IceGun®, til kælingar matvæla sem tryggir matvælaöryggi, lengra geymsluþol og aukna hagkvæmni. Framúrskarandi búnaður Thor Ice byggir á háþróaðari kælitækni sem nær fram nákvæmri hitastýringu, dregur úr bakteríuvexti og lágmarkar þyngdartap meðan á vinnslu stendur. Með áherslu á sjálfbærni, stuðlar Thor Ice að umhverfisvænni starfsháttum með bættri orkunýtingu, sem um leið dregur úr rekstrarkostnaði.
Sjá nánar á: www.thorice.is
Nefco – the Nordic Green Bank er alþjóðleg fjármálastofnun (IFI) í eigu Norðurlandanna og gegnir lykilhlutverki í framtíðarsýn þeirra um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Hlutverk Nefco er að greiða fyrir grænum umskiptum með fjármögnun sem ætlað er að efla útflutning norrænna grænna lausna á alþjóðlega markaði. Fjárfestingar Nefco eru fjölbreyttar og ná yfir allt frá endurnýjanlegri orku og hringrásarhagkerfinu til mengunarvarna og verndunar líffræðilegs fjölbreytileika.
Sjá nánar á: www.nefco.int/island