05.03.2025 | News
Nefco, Norræni græni bankinn, sem vinnur að því að greiða fyrir grænum umskiptum, hefur birt ársskýrslu fyrir árið 2024. Nefco er í eigu Norðurlandanna og gegnir lykilhlutverki í framtíðarsýn þeirra sem felur í sér að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.
Nefco hefur birt ársskýrslu fyrir árið 2024. Skýrslan sýnir að fjárfestingar Nefco og sjóða í stýringu hafa skilað verulegum árangri þegar kemur að því að flýta fyrir grænum umskiptum. Þrátt fyrir mikla alþjóðlega óvissu hefur Nefco áfram tekist að auka samfélagslega jákvæð áhrif sín með því að styðja við alþjóðlegan vöxt Norrænna lítilla og meðalstórra fyrirtækja (SMEs), aðstoða sveitarfélög í Úkraínu við enduruppbyggingu og fjármagna loftslagsverkefni í Afríku sunnan Sahara.
Í árslok 2024 stýrði Nefco 341 verkefni, þar af 81 virkri fjárfestingu. Því til viðbótar eru 260 virk verkefni fjármögnuð af sjóðum í stýringu hjá Nefco en þau snúa helst að mildun loftslagsbreytinga og verndun ferskvatns- og sjávarauðlinda. Verkefnin ná yfir mismunandi geira efnahagslífsins, þar með talið orkugeirann, byggingariðnaðinn, framleiðslu, samgöngur, vatnsveitu og meðhöndlun úrgangs. Þá hefur fjárfesting í hringrásarhagkerfinu aukist töluvert.
Rekstrarniðurstaða Nefco var áfram jákvæð og nam hagnaður ársins 12,6 milljónum evra, eða 1,8 milljarði íslenskra króna. Í lok árs 2024 var eigið fé Nefco samtals 142,6 milljónir evra, ríflega 20,5 milljarðar króna, og fjármagn sjóða í stýringu nam 685,9 milljónum evra, eða tæplega 99 milljörðum króna. Í árslok 2024 hafði 538 milljónum evra, eða ríflega 77 milljörðum króna, verið ráðstafað til virkra verkefna.
Samantekt frá árinu 2024:
- Samþætting við EU Taxonomy: 80% fjárfestinga Nefco uppfylla skilyrði flokkunarkerfis Evrópusambandsins (EU Taxonomy) og styðja þannig jafnframt við sjálfbærnimarkmið Norðurlanda og Evrópu.
- Alþjóðlegur vöxtur lítilla og meðalstórra fyrirtækja: Nefco stuðlaði að vexti Norrænna lítilla og meðalstórra fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum og studdi framsæknar lausnir á sviði sjálfbærrar framleiðslu, orku, samgangna og úrgangsstjórnunar. Þá hvatti nýtt tilraunaverkefni Nefco um líffræðilegan fjölbreytileika fyrirtæki til að tileinka sér visthverf viðhorf í allri sinni starfsemi.
- Sjálfbær endurreisn Úkraínu: Þrátt fyrir erfiðar aðstæður gegndi Nefco lykilhlutverki við úthlutun fjármagns frá Evrópusambandinu og ríkisstjórnum Norðurlanda til enduruppbyggingar mikilvægra innviða og byggingaframkvæmda vegna húsnæðis fyrir fólk á flótta í eigin landi (e. internally displaced persons) í samvinnu við úkraínsk sveitarfélög með það að markmiði að efla orkuöryggi og viðnámsþrótt samfélagsins.
- Vistvæn og ódýr raforka á svæðum sem búa við takmarkaðan aðgang að rafmagni: Verkefni undir stjórn Nefco hafa tryggt fleiri en 1,2 milljónum einstaklinga í Afríku sunnan Sahara aðgang að raforku með aðstoð orkutækni sem framleiðir rafmagn óháð dreifikerfinu.
- Verndun vistkerfisins í Eystrasalti: Nokkrum verkefnum sem unnu að endurheimt og verndun vistkerfisins í Eystrasalti lauk á árinu.
Hvað framtíðina varðar leggur Trond Moe, forstjóri Nefco, áherslu á áframhaldandi metnað Nefco til að flýta grænum umskiptum:
„Á tímum sem þessum, þegar alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir viðamiklum áskorunum, getur verið erfitt að sjá fyrir sér að hagkerfið verði að öllu leyti grænt og sjálfbært. Fjármögnunin er oft ákveðinn flöskuháls og því viljum við breyta. Okkar starfsemi miðar að því að auka aðgengi minni umhverfis- og loftslagsverkefna að fjármagni. Þessi verkefni, sem eru drifin áfram af frumkvöðlum og metnaðarfullu hugsjónafólki, geta sýnt okkur hvernig við getum þróað samfélagið í átt að betri og sjálfbærari framtíð.“
Trond Moe áréttar að starfsemi Nefco snúist ekki eingöngu um fjárhagslegan ávinning heldur einnig að verkefnin stuðli að jákvæðum umhverfisáhrifum:
„Í samvinnu við samstarfsaðila, viðskiptavini og starfsfólk erum við ekki bara að fjármagna verkefni, heldur að efla fyrirtæki og samfélög til að takast á við loftslagsbreytingar, hlúa að líffræðilegum fjölbreytileika og verða sjálfbær.“
Nefco, The Nordic Green Bank, er alþjóðleg fjármálastofnun (IFI) sem var stofnuð árið 1990 af Norðurlöndunum, þ.e. Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Með stækkandi safn grænna fjárfestinga og skýrum samhljómi við framtíðarsýn Norðurlandanna (Vision 2030), Græna sáttmála Evrópusambandsins (EU Green Deal) og Parísarsamninginn, mun Nefco áfram vinna að því að efla vöxt og viðgang Norrænna grænna lausna á alþjóðavettvangi.
Nánari upplýsingar er að finna í ársskýrslu Nefco 2024 sem og árlegri skýrslu Nefco um siðferðisleg viðmið og hlítni við lög og reglur.
Skýrslur ársins 2024
Fjárhagsuppgjör Nefco er í evrum. Íslenskar fjárhæðir miðast við miðgengi Seðlabanka Íslands þann 31. desember 2024 (143,9).
Nánari upplýsingar veita:
Trond Moe, forstjóri Nefco
trond.moe@nefco.int, +358 50 329 0860
Josefin Hoviniemi, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Nefco
josefin.hoviniemi@nefco.int, +358 50 464 6995